1. deild kvenna

KR tryggði sér 2. sæti og umspil um sæti í úrvalsdeild

22.mar.2016  23:58 barakristins@gmail.com

KR 80 - 48 Njarðvík

 

KR tryggði sér í kvöld 2. sæti í 1. deild kvenna með 32 stiga sigri á Njarðvík í DHL-höllinni og munu þær því leika á móti deildarmeisturum Skallagríms í umspili um sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Fyrir leikinn sat KR í 2. sæti deildarinnar með 24 stig og Njarðvík í 3. sæti með 22 stig, en Njarðvíkingar áttu tvo leiki til góða gegn Þór Akureyri. Þetta var fjórða viðureign liðanna í deildinni í vetur, KR sigraði fyrsta leikinn með 9 stigum og Njarðvík sigraði næstu tvo með 26 og 12 stigum. Til að eiga innbyrðis viðureignina og gulltryggja sér 2. sætið varð KR því að sigra leikinn með meira en 29 stigum.


Njarðvíkingar voru fyrri til að skora í kvöld þegar Svanhvít Snorradóttir setti niður víti fyrir þær grænklæddu en heimakonur voru þó fljótar að ná tökum á leiknum og skoruðu næstu 10 stigin. Njarðvíkingar voru ekki nógu áræðnar í sókninni og söknuðu líklega Carmen Tyson-Thomas sem spilaði ekki með þeim í kvöld. KR hélt áfram að auka forskotið í öðrum leikhluta og gengu þær til klefa í hálfleik með 16 stiga forystu, 40-24.

Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir skoraði fyrstu stig síðari hálfleiks og jók forystu KR í 18 stig. Undir forystu Bjarkar Gunnarsdóttur náðu Njarðvíkingar að minnka muninn niður í 9 stig í stöðunni 44-35 en nær komust þær ekki og KR leiddi fyrir lokafjórðunginn með 16 stigum. Heimakonur mættu dýrvitlausar til leiks í fjórða leikhluta, þær pressuðu stíft á Njarðvíkinga og uppskáru eftir því. Þegar rúm mínúta var liðin af leikhlutanum var munurinn kominn í 25 stig, 62-37 og því útlit fyrir spennandi lokamínútur þar sem kæmi í ljós hvort KR myndi tryggja sæti í umspilinu við Skallagrím. Heimakonur juku enn forystuna og sigruðu eins og fyrr segir með 32 stigum, 80-48.

Stigahæstar í liði KR voru Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 25 stig, Perla Jóhannsdóttir með 21 stig og Kristbjörg Pálsdóttir með 13 stig. Hjá Njarðvík voru Björk Gunnarsdóttir og Júlía Steindórsdóttir stigahæstar með 9 stig, Soffía Skúladóttir skoraði 8 stig og Svanhvít Snorradóttir 7 stig.

KR 80 – 48 Njarðvík (18-11, 22-13, 13-13, 27-11)

Myndir (Bára Dröfn)