Domino's deild karla

Stjörnumenn svöruðu kalli þjálfarans og sigruðu í Ljónagryfjunni

21.mar.2016  22:08 hordur@karfan.is

Staðan í einvíginu orðin 1-1

Njarðvík tók á móti Stjörnunni í Ljónagryfjunni í kvöld í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar. Njarðvík sótti 3. stiga sigur í fyrsta leik liðanna 62-65 og leiða því einvígið 1-0. Eftir síðasta leik kallaði Hrafn þjálfari Stjörnumanna eftir betri leik í kvöld en þeir sýndu á heimavelli sínum og þá sérstaklega sóknarlega. Haukur Helgi leikmaður Njarðvíkur sem var valinn lykil-leikmaður síðasta leiks sagði að varnaleikurinn hefði skilað sigrinum í leik 1. ásamt stuðningsmönnum liðsins sem fjölmenntu í Garðabæ á leikinn. 

 

Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun fyrir þá fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína í Njarðvík en fullt var útúr dyrum. 1. leikhluti fór vel af stað, bæði lið voru að spila fína vörn í leikhlutanum en honum lauk 12-15 Stjörnunni í vil. Haukur Helgi var líflegur í liði heimamanna en hann setti 5 fyrstu stig sinna manna. Ólafur Helgi kom full ákafur inn í leikinn en kappinn kom inná og fékk 3 villur dæmdar á sig á skömmum tíma.  Hjá Stjörnunni voru það flest allir leikmenn sem inn á völlin komu settu niður körfu. Tilþrif leikhlutans var þegar Al´lonzo hjá Stjörnunni sem lét Maciej Baginski finna fyrir því og blokkaði hann illa eftir að hafa sett körfu á hinum endanum. Al´lonzo sennilega brenndur eftir síðasta leik þegar Haukur Helgi setti hann á veggspjald með hrikalegu blokki. Þegar lítið var eftir af leikhlutanum gerðist svo það sem allir hafa beðið eftir en Stefan Bonneau steig inn á parketið í Ljónagryfjunni.

 

2. leikhluti var jafn fjörlegur og sá fyrsti. Sæmundur Valdimarsson fór mikinn í byrjun leikhlutans og setti hann niður 6 stig fyrir gestina á skömmum tíma. Hjá Njarðvík var Haukur Helgi allt í öllu en hann setti 7 stig á móti. Þegar um 6 mínútur voru eftir af leikhlutanum þurfti svo hinn umtalaði Stefan Bonneau að fara af velli meiddur, þannig að gamanið var stutt hjá honum í leiknum. Bæði lið voru búin að hrista af sér mesta hrollinn og farin að setja niður körfur. Undir lok leikhlutans náðu heimamenn með góðu áhlaupi og settu 11 stig í röð þar af góðar 3. stiga körfur frá Oddi Kristjáns og Hirti Einars. Staðan að lokum leikhlutans var 38-32 Njarðvík í vil.

 

Atkvæðamestir Njarðvík: Haukur Helgi 17 stig/ 3 fráköst, Oddur Kristjáns 6 stig og  Hjörtur Hrafn 5 stig/ 4 fráköst/ 3 stolnir

 

Atkvæðamestir Stjarnan: Sæmundur Valdimars. 10 stig, Alonzo Coleman 8 stig/ 5 fráköst en Stjörnumenn dreifðu stigaskori sínu vel í fyrri hálfleik þar sem 7 leikmenn komust á blað.

 

Í byrjun 3 leikhluta héldu Njarðvíkingar uppteknum hætti varnarlega og voru þeir að þröngva Sjörnumenn í erfið skot. Í stöðunni  43-34 tóku Stjörnumenn 0-13 áhlaup en þeir héldu heimamönnum í Njarðvík frá því að skora í rúmar 5 mínútur og komust yfir 43-47. Njarðvík vöknuðu af þessum blundi með 3. Stiga körfu frá Jeremy Atkinson en staðan að leikhlutanum loknum 54-56 þar sem Haukur Helgi setti 4 stig fyrir Njarðvík af línunni í lokin og allt í járnum.

 

4 leikhluti var barátta út í gegn en Stjarnan hélt sér í bílstjórasætinu allan leikhlutann. Justin Shouse og Al´lonzo Coleman stigu upp í liði gestanna sem voru að spila flotta vörn og finna körfuna hinumegin. Þeir félagar hentu í 10 stiga áhlaup og komu Stjörnunni í 60 – 71 þegar um 4 mínútur voru eftir af leiknum og var það of stórt bil fyrir heimamenn að brúa sem börðust þó allt til enda. Skynsamir Stjörnumenn, dyggilega studdir af stuðnigsmönnum sínum, létu leikinn þó aldrei úr höndum sér og svo fór að þeir sigruðu 70-82 og kvitta því fyrir tapið á heimavelli og jafna seríuna 1-1.

 

Atkvæðamestir Njarðvík: Haukur Helgi 26 stig, Oddur Rúnar 13 stig/ 5 fráköst, Jeremy Atkinson 11 stig/ 6 fráköst, Maciej Baginski 9 stig/ 7 stoðsendingar. 
Njarðvíkingar töpuðu frákastabaráttunni í leiknum illa með 24 fráköst á móti 38 fráköstum Stjörnunnar. 

 

Atkvæðamestir Stjarnan: Al´lonzo Coleman 24 stig/ 13 fráköst/ 4 stolnir, Justin Shouse 19 stig/ 5 stoðsendingar, Marvin og Sæmundur Valdimarssynir 12 stig hvor. 

 

Texti: Árni Þór Ármannsson

Myndasafn:  Skúli Sig

 

Njarðvík-Stjarnan 70-82 (12-15, 26-17, 16-24, 16-26)
Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 26, Oddur Rúnar Kristjánsson 13/5 fráköst, Jeremy Martez Atkinson 11/6 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 9/7 stoðsendingar, Hjörtur Hrafn Einarsson 7/6 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 4, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Stefan Bonneau 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Oddur Birnir Pétursson 0. 
Stjarnan: Al'lonzo Coleman 24/13 fráköst, Justin Shouse 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Sæmundur Valdimarsson 12, Marvin Valdimarsson 12, Tómas Þórður Hilmarsson 6/4 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 5, Tómas Heiðar Tómasson 4/5 fráköst, Óskar Þór Þorsteinsson 0, Grímkell Orri Sigurþórsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Ágúst Angantýsson 0/6 fráköst, Egill Agnar Októsson 0.  
 
Viðureign: 1-1