Haukar eignuðu sér teiginn í Þorlákshöfn

21.mar.2016  23:24 nonni@karfan.is

Í kvöld fór fram leikur nr. 2 í viðureign Þórs Þorlákshafnar og Hauka í 8-liða úrslitum Íslandssmóts karla. Haukar léku án Kára Jónssonar í leiknum en hann meiddist í fyrsta leik liðanna sem að Þór vann í spennuleik. 
 


Leikurinn fór rólega af stað en gestirnir í Haukum voru með yfirhöndina í byrjun en þeir leiddu 19-12 eftir fyrsta fjórðung. Þórsarar tóku við sér í öðrum fjórðung og náðu að fara með 35-33 forystu inn í hálfleik. Atkvæðamestir í fyrri hálfleik voru Vance Hall með 14 stig fyrir Þór og Brandon Mobley með 10 stig fyrir Hauka. 

Haukar tóku snemma völdin í leiknum í síðari hálfleik en þeir voru með um 10 stiga forystu mestallann síðari hálfleik. Þórsarar hefðu getað komist mun nær Haukum því að Haukarnir voru ekki að skora mikið á lokamínútunum og Þórsarar fengu nokkra góða sénsa í sókninni sem að hefðu breytt stemmningunni í leiknum en stóru skotin voru ekki að detta. 
Fór svo að Haukar fóru með sigur af hólmi 76-65 og jafna því einvígið í 1-1. 

Bæði lið hittu afleitlega í leiknum, voru liðin með sömu hittni utan af velli eða 23-73 sem að gerir 32% nýtingu. Bæði lið voru að spila góða vörn í leiknum en dómarar leiksins leyfðu mönnum oft á tíðum að spila frekar fast. Þórsarar leyfðu Haukum oft og tíðum að ná sóknarfráköstum en Haukar unnu frákastabaráttuna 52-35. 

Brandon Mobley var atkvæðamestur Hauka með 20 stig og 9 fráköst og Vance Hall atkvæðamestur hjá Þór með 24 stig. Hjálmar Stefánsson átti mjög góðan leik fyrir Hauka með 17 stig 9 fráköst og frábæra vörn á Vance Hall. 

Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka sagði að frábær varnarleikur og agaður og góður sóknarleikur í síðari hálfleik hafi skilað sigrinum fyrir sína menn. 

Emil Karel Einarsson fyrirliði Þórs sagði sína menn ekki hafa verið að hitta úr skotunum sínum og þeir megi ekki láta Vance Hall axla of mikla ábyrgð í sóknarleiknum, þeir þurfi allir að stíga upp sóknarlega. 

Næsti leikur liðanna fer fram á Ásvöllum í hafnarfirði fimmtudaginn 24. mars Kl. 19:15 og má búast við hörku leik. 

Tölfræði leiksins


Umfjöllun/ Vilhjálmur Atli Björnsson
Mynd/ Guðmundur Karl - Sunnlenska.is