Varapistill IX

Látum teitið byrja

14.mar.2016  07:00 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

 

Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum í Domino´s deild karla og fljótlega kemur í ljós hvaða lið mætast kvennamegin. Úrslitakeppninn er auðvitað sá tími sem langflestir bíða eftir. Það er mikill misskilningur að það séu bara leikmenn liðanna sem eiga sæti í úrslitakeppninni sem hlakka til því leikmenn liðanna í 9.-12. sæti gleðjast einnig mikið þegar úrslitakeppnin hefst því þá loksins geta þeir farið að gera eitthvað annað en að tapa körfuboltaleikjum, s.s. að verða betri eða huga að því að skipta um lið. Alveg get ég ímyndað mér að leikmenn Hattar og FSU séu t.d. búnir að bíða óþreyjufullir eftir úrslitakeppninni síðan um miðjan janúar...
 

Það eru þó ekki allir sem hlakka til úrslitakeppninnar. Þannig eru tveir leikmenn í öllum liðunum sem komast í úrslitakeppnina sem hugsa til þessa tíma með hryllingi og óska þess að enn sé árið 2000 og einungis sé heimilt að hafa 10 leikmenn á skýrslu. Þetta eru leikmennirnir sem eru yfirleitt lengst til vinstri á bekknum. Þeir sem hafa t.d séð myndir af bekknum hjá Keflavík árin 2000 – 2005 hafa líklega séð glitta í undirritaðan á þeim enda bekkjarins, þ.e. 193 cm, 75 kg, kinnfiskasoginn fýlupúka. Úrslitakeppnin er sá tími sem þessir leikmenn gerast endanlega áhorfendur og það eina jákvæða við að þeir komist í liðið er að þeir fá frítt á leikina. Gallinn er hins vegar sá að þeir geta ekki keypt sér sælgæti og gos á meðan á leik stendur né dottið í það strax eftir leik. Tja, nema um sé að ræða síðasta leikinn í 8-liða úrslitum og þú ert Keflvíkingur því þá er ansi öruggt miðað við sl. 4 ár að þar með sé þátttöku þinni í úrslitakeppninni lokið...
 

En talandi um úrslitakeppni. Minn maður Jimmy Miggins fékk aldrei það tækifæri að spila í úrslitakeppni á Íslandi. Ef hann hefði hins vegar fengið það tækifæri hefði hann auðvitað ekki hikað við að fá sér í aðra tánna en þó líklegast þær allar. Það var hans trúfasta skoðun að hann spilaði betur því meira sem hann drykki daginn fyrir leik. Hann ýjaði jafnvel að því við undirritaðann að það væri jafnvel best að vera einfaldlega undir áhrifum á meðan á leik stæði. Einn sunnudaginn í október 2004 barði okkar maður að dyrum hjá Gunnari Hafsteini Stefánssyni. Gunnar kemur til dyra og það fyrsta sem okkar maður segir er; „Mmm YO,  Stef – you got one of them bruskies over there“ og bendir á ísskápinn. Um kvöldið förum við með kappanum í bíó í Keflavík á óskarsverðlaunamyndina White Chicks (Já, það er bíó í Keflavík fyrir ykkur sem komið að fjöllum og tölduð að eina bíóið í Keflavík væri Andrew´s Theatre sem staðsett er á Nato Base, einnig þekkt sem Ásbrú, sem hýsir í dag menntafólk og rjóma keflvísks samfélags) Nú við vissum auðvitað að kappinn var einkar félítill og því buðumst við til að kaupa handa honum Coke og popp; „No thanks – I got my coke right over here“, sagði hann og lamdi með flötum lófa á brjóstið. Þegar í bíósalinn var komið var ljóst við yrðum bara fjórir í bíó og eins og sannir Íslendingar settumst við Gunnar og Jón Norðdal allir hlið við hlið í sömu sætaröðinni. Okkar maður var ekki lítið hneikslaður, sprakk úr hlátri og sagði hátt og snjallt „Pffhhh this shit is just GAY“, settist svo í röðina fyrir neðan, fór í innri vasann á svarta leðurjakkanum sem var um það bil á stærð við 9 manna fjölskyldutjald úr Ellingssen, sótti það sem við héldum að væri Coke dós og skellti henni í sig í einum sopa. Þarna var auðvitað ekki um Coke að ræða heldur bjórinn sem Gunnar hafði gefið honum fyrr um daginn...
 

En nóg af kjaftæði. Ég ætla að henda mér í kjólinn hennar Siggu Klingenberg og spá fyrir um 8-liða úrslitin;


KR – GRINDAVÍK (3-0)

Ég er ekki jafn viss og áður að KR verji Íslandsmeistaratitilinn. Það fór eitthvað svægi með Ægi. Það er þó augljóst að náungakærleikur KR-inga nær lengra en sókn þeirra í öruggan Íslandsmeistaratitil...
Ekki veit ég hvaða öndunarfærasjúkdómur hrjáir Chuck hjá Grindavík. Það þarf þó líklega meira en barkaígræðslu frá færustu læknum karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi til að gera ástand hans það gott að Grindavík fari í gegnum KR. Ég áætla að þeir röndóttu fari fremur auðveldlega í gegnum þessar seríu og hún verði jafn spennuþrungin og fjörug og leikhlé Grindavíkur...


STJARNAN – NJARÐVÍK (1-3)

Stjarnan er með flott lið og eiga annð sætið skilið eftir að vera búnir að þjösnast uppt töfluna hægt og bítandi. Held þeir hafi hreinlega farið svona ofarlega á þrjóskunni í Justin Shouse. Ég sé þá samt ekki fara í gegnum Njarðvík þó enginn Logi lýsi þeim...
Njarðvíkingar hafa auðvitað ollið talsverðum vonbrigðum enda bjóst enginn við að þessi gæða mannskapur myndi ljúka tímabilinu í sjöunda sæti. Held þó að úrslitakeppnin muni draga fram gæðin í liðinu og þeir springi út í seríunni gegn Stjörnunni. Það veltur þó á því hvort Haukur Helgi verður heill heilsu en hádegistilboðið á Ítalíu virðist hafa farið illa í kappann...
Er annars ekkert að frétta af Stefan Bonneau? Hef ekki séð myndband af honum hoppa í hjartnær 14 mínútur...


KEFLAVÍK – TINDASTÓLL (3-2)

Tindastóll eru komnir á þvílíkt skrið með nýjum þjálfara. Ekkert lið vill mæta Norðanmönnum en hitinn á liðinu er slíkur að manni grunar að þeir hafi hreinlega innbyrt óhemjumagn af „Spanish fly“...
Á sama tíma hefur Keflavíkurhraðlestin farið örlítið út af sporinu en það er eitthvað sem segir mér að ef þeir ná að sigra fyrsta leikinn að þá fari þeir í gegnum þetta einvígi. Til að svo megi vera þarf Keflavík þó alltaf að vera Keflavík í Keflavík. Ef þeir hins vegar tapa fyrsta leik er allt eins líklegt að þeim verði sópað út...


HAUKAR - ÞÓR ÞORLÁKSHÖFN (3-2)

Þetta eru þau lið í deildinni sem mér þykir einna vænst um því þarna eru „heimastrákar“ í stórum hlutverkum en ekki bara einhverjar kíttisrákir til að þétta gifsveggi...
Haukar eru eins og Tindastóll farnir að spila eins og búast mátti við af þeim. Ég verð að koma út úr skápnum með þá staðreynd að ég er með rosalegt „man crush“ á Kára Jónssyni. Drengurinn er gjörsamlega frábær leikmaður og þrátt fyrir ungan aldur er þetta sá drengur í deildinni sem ég vildi alltaf hafa í mínu liði til að vera með boltann þegar lítið er eftir og leikurinn er undir. Það er bara þannig ára yfir Kára...
Þór Þorláksshöfn eru búnir að spila heilt yfir nokkuð vel í vetur og hefur Einar Árni náð að halda þeim vel við efnið og gert góða hluti. Þeir eiga fullt erindi í þessa seríu við Hauka og nái þeir upp sömu stemmningu og einkennt hefur liðið í stóru leikjum vetrarins gætu þeir jafnvel náð langt. Ég er a.m.k. tilbúinn að koma sem boðflenna í partýið sem haldið verður komist Þór í 4-liða úrslit...