Sanngjarn sigur Hauka í Keflavík

13.mar.2016  21:23 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Haukar á toppinn - Stefnir í úrslitaleik um 4. sætið

Keflavík og Haukar áttust við í kvöld í Dominosdeild kvenna og leikurinn gríðarlega mikilvægur báðum liðum. Svo fór að Haukar höfðu að lokum 67:54 sigur gegn annars nokkuð baráttuglöðu Keflavíkurliði. 

 

Leikurinn var fremur jafn framan af  en þegar á leið fóru Haukastúlkur að síga hægt og bítandi fram úr og leiddu með 9 stigum í hálfleik. Þegar best lét voru Haukar komnir í 19 stiga forystu og lítið annað sem benti til þess en að Keflavík væru að láta flengja sig á sínu eigin svelli.  Sverrir Þór Sverrisson brá þá á það ráð að leyfa minni spámönnum að spreyta sig og þær komu inná með þann kraft sem liðinu hafði vantað framan af leik. Gríðarlega barátta í varnarleik liðsins skilaði þeim akkúrat sem þeim vantaði og munurinn allt í einu komin niður í 3 stig í stöðunni 50:53. 

 

Eitt lítið andartak gleymdu þær Keflavíkurstúlkur sér í gleðinni og Haukar voru fljótar að refsa. Þær skoruðu næstu 8 stig leiksins og aftur komnar í 11 stiga forystu sem Keflavíkurliðið náði ekki að brúa og því sigur Hauka staðreynd. 

 

Haukaliðið á flottu róli þessa dagana og sú ákvörðun að láta Chelsie Scweers fara að skila sér að fullu.  Ungu leikmennirnir komnir aftur inn í leik liðsins og Helena stjórnar leik liðsins sem herforingi. Í raun er hún algerlega ómissandi fyrir liðið líkt og erlendir leikmenn fyrir önnur lið í deildinni.  Keflavíkurliðið er skipað mikið af ungum leikmönnum sem eiga enn eitthvað eftir í land að læra að synda í djúpulauginni. Allt of mikið af smá mistökum sem þær geta leyft sér í yngri flokkum eru enn að sjást til leikmanna. Kannski ekki nema von því lungan af liðinu enn að spila með yngriflokkum klúbbsins. Þær eru hinsvegar að fá ómetanlega reynslu snemma á ferli sínum og það er þeirra að nýta sér það til fulls á komandi árum. 

 

Keflavík skortir einnig erlends leikmanns. Melissa Zorning er einfaldlega langt frá því að teljast nægilega sterkur leikmaður til að leiða liðið og Monica Wright sem nú er hægt og bítandi að komst á ról er enn langt frá sínu besta þrátt fyrir að sýna góða takta á tímum. 

 

Allt stefnir nú í úrslitaleik hjá Keflavík gegn Grindavík um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Tvær umferðir eru eftir og Grindavík leiðir þetta kapphlaup með einum sigri fleiri en Keflavík. Ef úrslit fara eftir bókinni eins og sagt er þá spila Keflavík og Grindavík í Keflavík í lokaumferðinni um lokasætið. 

 

Tölfræði leiksins