Stjarnan krafsaði sig í annað sætið

10.mar.2016  23:52 nonni@karfan.is

Það var enginn æfingaleikur í Ásgarði í kvöld þar sem heimamenn fengu piltana úr Bítlabænum í heimsókn. Í húfi var 2. sætið í deildinni og þar með heimaleikjaréttur í bæði 8- og 4-liða úrslitum. Liðin hafa glatt körfuboltaáhugamenn ítrekað síðustu ár með skemmtilegum rimmum og vafalaust engin undantekning á því í kvöld.


Það voru næstum þrjár mínútur liðnar af leiknum þegar fyrstu stigin komu með þristi frá Reggie. Mikilvægi leiksins leyndi sér ekki og spennu / gleði / fiðrings / úrslitakeppnishrollur í húsinu. Bæði lið ætluðu greinilega að leggja allt í sölurnar og þá vill það bitna á sóknarleiknum en styrkja varnir. Gestirnir voru þó lítið eitt skárri sóknarlega og þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum var staðan 3-10! Nokkrir boltar duttu svo hjá liðunum undir lokin og staðan 10-18 eftir fyrsta fjórðung.

 

Marvin kom með mikilvægt sóknarinnlegg hjá Stjörnunni í öðrum leikhluta. Eftir SVAÐALEGT varið skot hjá Zo í hraðaupphlaupi Reggie snerist stemmningin alfarið til heimamanna og í lok leikhlutans komu Stjörnumenn sér 34-33 yfir í fyrsta sinn í leiknum. Sunny Kef-drengirnir áttu hins vegar síðustu 3 stigin og e.t.v. andlega mikilvægt að hafa 34-36 forskot í hálfleik þó dvergvaxið væri.

 

Stigunum rigndi ekkert í þriðja leikhluta frekar en fyrr í leiknum. Zo reyndi mikið en var í það minnsta ekki að eiga leik lífs síns og tapaði boltanum fulloft. Aftur var það Keflavík sem byrjaði betur og komu sér aftur allnokkrum stigum yfir. Eftir úrslitakeppnis-baráttu í bland við svolítinn taugatitrings-klaufaskap höfðu Keflvíkingar betur í leikhlutanum og höfðu smávaxinn 6 stiga púða, 51-57 fyrir síðasta fjórðunginn.

 

 Sex stig er auðvitað varla forskot í körfubolta eins og allir vita og það var eins og örlög leiksins að heimamenn mjökuðu sér nær gestunum hægt og rólega. Um miðjan leikhlutann var leikurinn orðinn hnífjafn og andlegur styrkur mikilvægasta hjálparhellan. Gummi Jóns hefur nóg af honum og setti þrist af dýrari gerðinni þegar 3 mínútur voru eftir og staðan 63-67. Heimamenn þurftu nauðsynleg að svara sem skjótast og nýttu sér einn helsta veikleika Keflavíkurliðsins er Zo hirti sóknarfrákast og setti sniðskot af miklu harðfylgi. Þar voru 6 stig komin í röð hjá heimamönnum og staðan 69-67. Keflvíkingar náðu að jafna en Zo svaraði jafnharðan með mjög góðri hreyfingu og eftir frábæran varnarleik heimamanna neyddust gestirnir til þess að brjóta á Marvin. E.t.v. voru þeir svolítið seinir til þess og aðeins 5 sekúndur eftir. Marvin er alvöru leikmaður og setti auðvitað bæði vítin. Þrátt fyrir 2 stig frá Keflavík í blálokin var sigurinn í höfn, 73-71, í ,,fyrsta leik úrslitakeppninnar“!

 

Kef-City lagði allt í sölurnar og þar sem þeir leiddu mestallan leikinn hlýtur þetta að vera svolítið sárt tap. Kannski má segja að leikurinn endurspegli stöðu liðsins í deildinni en þeir héldu fyrsta sætinu fram eftir öllu en þurfa að sætta sig við 3. sætið nú þegar upp er staðið. Magnús Már var verulega góður í leiknum, skoraði 18 stig og tók 7 fráköst. Hill kom næstur með 14 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Það er ekki hægt að gagnrýna það en samt sem áður eru það sóknarfráköst andstæðinganna sem valda liðinu mestum búsifjum.

 

Stjörnumenn fundu engan takt sóknarlega í byrjun en reynslumiklir kappar láta það ekki trufla sig of mikið og má segja að liðið hafi krafsað sig ofan á á lokasprettinum. Liðið hefur allnokkrum sinnum sýnt mikla seiglu í vetur og eru til alls líklegir í framhaldinu – enda hampa þeir öðru sætinu í deildinni. Þrátt fyrir svolítið brösótt gengi hjá Zo á köflum í leiknum reyndist hann vel eins og svo oft áður í vetur þegar mest á reyndi. Tölfræðin að lokum ekkert slor – 24 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar. Marvin byrjaði á bekknum en skilaði mikilvægum 15 stigum áður en yfir lauk.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Tomasz Kolodziejski

 

 

Umfjöllun/ Kári Viðarsson