Dominos deild kvenna skýrist

Haukar yfir í baráttunni um deildarmeistaratitilinn

08.mar.2016  21:40 Oli@karfan.is

Snæfell yfir í innbirgðisviðureignum liðanna

Það var vel við hæfi að stærsti leikur tímabilsins í Dominos deild kvenna færi fram á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þá mætust tvö efstu lið deildarinnar í mikilvægum leik sem vegur þungt í baráttunni um deildarmeistaratitilinn og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Liðin hafa mæst þrisvar áður á tímabilinu þar sem Snæfell hefur unnið tvisvar á sínum heimavelli en Haukar unnið sinn eina heimaleik.

 

Snæfell eru núverandi íslands- og bikarmeistarar og hafa sýnt mikinn styrk og karakter í vetur. Haukar sem fyrir tímabilið var spáð öruggum sigri í deildinni hafa staðið fyrir sirkus síðustu vikuna með breytingum á þjálfaraliði og leikmannahóp.

 

Þannig var Ingvar Þór Guðjónsson sem stýrði liðinu og hafði landsliðsþjálfarann Ívar Ásgrímsson sér til aðstoðar í fjarveru Hennings Henningssonar sem er nýkominn í þjálfaraliðið. Einnig voru Haukar án Chelsie Schweers sem var leyst undan samningi í vetur auk þess sem Jóhanna Björk Sveinsdóttir var ekki með þar sem hún gerir upp hug sinn varðandi framtíð sína í liðinu.

 

Þetta leit ekki út fyrir að trufla Hauka neitt í byrjun leiks þar sem liðið náði 16 stiga forystu strax í fyrsta fjórðung 23-7. Helena Sverrisdóttir var í algjörum sérflokki á vellinum á upphafs mínútunum og var komin með heil 16 stig á fyrstu átta mínútum leiksins. Staðan í lok fyrsta fjóðungs var 27-12 Haukum í vil og brekkan orðin virkilega brött fyrir Snæfell.

Annar fjórðungur var eign Snæfels sem hægt og bítandi minnkaði muninn. Heiden Palmer átti góðan leikhluta og kom sínum konum inní leikinn. Áður en liðin héldu til búningsklefa í hálfleik var staðan 38-35 og leikurinn skyndilega í járnum.

 

Síðari hálfleikur hófst á því að Snæfell minnkaði muninn í þrjú stig. Þá urðu mikil kaflaskil í leiknum þar sem Haukar settu fjórar þriggja stiga körfur á mjög stuttum kafla og staðan skyndilega orðin 54-45 fyrir heimakonur. Snæfell reyndi að klóra í bakkann en Haukakonur settu síðustu átta stig þriðja fjórðungsins og staðan 64 - 50 að honum loknum.

 

Heiden Palmer sem hafði verið prímusmótor Snæfels í fyrri hálfleik komst hvorki lönd né strönd í þriðja leikhluta og bætti þá einungis við tvem stigum. Varnarleikur Hauka var virkilega sterkur í seinni hálfleik og má með sanni segja að hann hafi skapað úrslit kvöldsins.

 

Nær komst Snæfell ekki en Haukar voru mun meira sannfærandi og kraftmeiri í sínum aðgerðum. Haukar héldu stöðugleika út leikinn og lönduðu að lokum öruggum sigri 78-59 í þessum mikilvæga leik.

Haukaliðið leit mun betur út í dag þegar Helena fékk að hafa boltann meira og það jók flæði liðsins til muna. Munur á þriggja stiga nýtingu liðanna var einnig gígantískur þar sem Snæfell hitti 17% gegn 43% hjá Haukum.

 

Það virtist sem neikvæð umræðu um Hauka í vikunni hafi kveikt í leikmönnum til að sína hvers þær eru megnugar. Frammistaða Hauka algjörlega til fyrirmyndar og fá lið sem stoppa þær á degi sem þessum.

 

Snæfell aftur á móti virtist vera með hausinn skrúfaðan öfugt á. Byrjuðu mjög illa opg þrátt fyrir góð áhlaup voru leikmenn fljótar að missa hausinn og verða pirraðar við minnsta mótlæti. Ákvarðanataka liðsins var sérstaklega ábótavant þar sem þær tóku ítrekað galin skot og skildu góða skotmenn eftir opna í vörninni.

 

Helena Sverrisdóttir sýndi enn einu sinni yfirburði sína í þessari deild. Hún skilaði stórkostlegri þrennu með 32 stig, 17 fráköst og 11 stöðsendingum, ekki reyna að leika þetta eftir heima! Haukarnir fengu framlag frá öllum leikmönnum og er verðugt að nefna Dýrfinnu Arnarsdóttur sem barðist eins og ljón þegar hún var inná og átti fínan leik.

 

Hjá Snæfell var Heiden Palmer stigahæst með 22 stig en það var á tímabili í seinni hálfleik sem hún ætlaði sér of mikið sjálf og gleymdi liðsfélögum sínum. Gunnhildur Gunnarsdóttir átti einnig fínan leik en heilt yfir fékk Snæfell of lítið útúr mörgum af sínum leikmönnum.

 

Nítján stiga sigur Hauka þýðir að Snæfell leiðir innbyrgðis viðureign liðanna með einu stigi sem gæti reynst mikilvægt ef Haukar misstíga sig lok tímabils. Með sigrinum komast Haukar þó skrefi nær deildarmeistaratitilinum en ljóst er að Snæfell mun anda í hálsmálið á þeim allt til síðasta leiks.

 

Tölfræði leiksins


Myndasafn - Þorsteinn Eyþórsson
Myndasafn - Axel Finnur

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Axel Finnur Gylfason