Tekst Stjörnunni að hemja Carberry?

Fyrsti leikur Stjörnunnar og Hattar í Ásgarði

03.mar.2016  11:31 nonni@karfan.is

Stjarnan og Höttur mætast í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik í Ásgarði í kvöld þegar 20. umferð Domino´s-deildar karla fer af stað. Fyrsti leikur liðanna í úrvalsdeild fór fram á Egilsstöðum þann 3. desember síðastliðinn þar sem Garðbæingar fóru með 64-79 sigur af hólmi. Nú er komið að öðrum sögulegum leiknum á milli liðanna, á heimavelli Garðbæinga.


Heil 20 stig skilja liðin að í deildinni, Höttur á botninum með 6 stig en Stjarnan í 2.-3. sæti með 26 stig í harðri baráttu við Keflavík um 2. sætið. 

 

Stjarnan lék fyrst í úrvalsdeild tímabilið 2001-2002 en Höttur kom fyrst upp í úrvalsdeild 2005-2006 og féll þá sömu leiktíð aftur niður um deild en 2005-2006 lék Stjarnan í 1. deild karla svo leiðir þessara tveggja félaga hafa ekki legið saman í úrvalsdeild fyrr en nú því Hattarmenn eru aðeins á sínu öðru úrvalsdeildarári í sögu félagsins. Stjarnan hefur hinsvegar leikið samfleytt í úrvalsdeild frá tímabilinu 2007-2008.

 

Þó 20 stig skilji liðin að í deildinni þá eru stigin í kvöld báðum liðum afar mikilvæg. Höttur er enn að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og þurfa sigur til að sá draumur haldist á lofti og Stjarnan með augastað á 2. sæti deildarinnar. Þá er athyglisvert að skoða að Höttur er á betra „rönni“ en Stjarnan því Hattarmenn hafa unnið tvo leiki í röð en Garðbæingar 1. 

 

Tobin Carberry splæsti í svaðalega þrennu í síðasta leik, hann þarf að galdra fram eitthvað ekki ósvipað í kvöld í Ásgarði ef Höttur á að fara heim með stigin. Fróðlegt verður að sjá hvernig Stjörnumönnum tekst að hemja kappann.