Tvíhöfða-umfjöllun

Kátt í Höllinni á Akureyri

27.feb.2016  08:58 nonni@karfan.is

Hér að neðan er Páll Jóhannesson mættur með íturvaxna umfjöllun frá tvíhöfðanum sem átti sér stað í Höllinni á Akureyri í gærkvöldi. Heimamenn og konur í Þór fögnuðu sigri í tvíhöfðanum, konurnar gegn KR og karlarnir gegn Ármanni. Reykjavík var því lögð að velli fyrir norðan í gær! 

Segja má að máltækið ,,Allt er þegar þrennt er“ hafi sannað sig í kvöld þegar Þór og KR mættust í íþróttahöllinni í kvöld en þetta var í þriðja sinn sem liðin mætast í vetur. Í fyrstu tveim leikjunum sem fram fóru syðra höfðu KR ingar betur en nú gekk dæmið upp hjá Þór og fjögurra stiga sigur 56-52 staðreynd.

 

En leikur liðanna fer nú samt ekki skráður á spjöld sögunnar sem körfuboltalega séð fyrir nein sérstök gæði. Bæði lið gerðu sig seka um fjölmörg mistök.

 

Þótt Þór hafi skorað fyrstu stigin í leiknum 1-0 voru það gestirnir sem leiddu það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og höfðu yfir að honum loknum 17-19. Þór komst yfir strax í öðrum leikhluta 20-19 en eftir það var jafnt á með liðunum. En með Þór hafði betur í öðrum leikhluta og höfðu yfir í hálfleik með einu stigi 33-32.

 

Fyrri hálfleikur einkenndist af miklum mistökum beggja liða. Hittni var slök hjá báðum liðum og skipti þá engu hvaðan menn skutu, á köflum virtist leikmönnum alveg fyrirmunað að koma boltanum rétta leið.

 

Þriðji leikhluti var keimlíkur öðrum fjórðung og skiptust liðin á forystunni og munurinn á bilinu 1-4 stig. KR vann fjórðunginn með tveim

stigum 10-12 og leiddu með einu stigi þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst 43-44.

 

Þórsarar byrjuðu betur í fjórða leikhluta og ljóst var að viljinn var meiri þeim megin til þess að vinna. Liðið náði um tíma þriggja stiga forskoti en þegar leikhlutinn var hálfnaður komst KR yfir 48-49. Þórsliðið gaf í aftur og náði forskotinu á ný 52-49 en þegar  um tvær mínútur lifðu leiks var staðan jöfn 52-52. En Þórsliðið reyndist sterkara á lokakaflanum og lönduðu stelpurnar langþráðum sigri á KR 56-52.

 

Ljóst er að Þórsliðið saknar mjög Ernu Rúnar sem hefur verið aðal leikstjórnandi liðsins en hún sleit sin í fingri og leikur ekki meira með liðinu það sem eftir lifir móts. En  eins og ávallt kemur maður í manns stað nú sem endranær.

 

Fanney Lind var mjög öflug í kvöld og skoraði 16 stig og tók 10 fráköst. Helga Rut Hallgrímsdóttir 13 stig og 14 fráköst, Rut Herner 12 stig og 6 fráköst, Bríet Lilja 9 stig og 12 fráköst, Heiða Hlín 5 stig og 7 fráköst og Thelma Hrund 1 stig.

 

Hjá KR var Perla Jóhannsdóttir stigahæst með 20 stig og 6 stoðsendingar, Ingibjörg Yrsa 10 stig, Guðrún Gróa var með 7 stig og 20 fráköst, Þorbjörg Andrea 7 stig og 8 fráköst og Rannveig 6 stig.

 

Eftir sigurinn í kvöld er Þór sem fyrr í 5. Sæti deildarinnar nú með 10 stig.

 

Næsti leikur liðsins verður á morgun, laugardag gegn KR og fer leikur liðanna fram í Síðuskóla og hefst klukkan 15:00.

 

Myndir úr leiknum Palli Jóh 


Þór – Ármann

101-66

23-16 / 31-12 / 20-18 / 27-20

 

Eins og lokatölur leiksins sýna var í raun aldrei nein spenna í leiknum og aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti. Fyrsti leikhlutinn var þó nokkuð jafn og gaf ekki nein sérstök fyrirheit um það sem koma skildi. Um miðjan leikhlutann munaði sjö stigum á liðunum 17-10 en gestirnir minnkuðu muninn þá niður í þrjú stig 17-14. Þór leiddi með sex stigum þegar annar leikhlutinn hófst 23-16.

 

Þegar annar leikhlutinn hófst fannst Þresti Leó komið nóg af einhverju meðalhófi og tók hann til sinna ráða og raðaði niður sem snöggvast nokkrum körfum í röð og þar á meðal einni troðslu sem kveikti svo um munaði í mönnum. Já Þröstur Leó í fluggír. Þórsarar bættu jafnt og þétt í og höfðu náð 26 stiga forskoti þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.

 

Benedikt þjálfari hefur brugðið á það ráð í vetur í þeim leikjum sem Þór hefur mikla yfirburði gefa reynslumestu leikmönnum liðsins góða hvíld og á því var engin breyting í kvöld. Drew Lehman, Danero Thomas og Þröstur Leó fengu ekki mikinn spilatíma og þeir Drew og Danni fengu ekkert að spila í síðari hálfleik.

 

En það kom ekki í veg fyrir að Þór bætti jafnt og þétt í forskotið og hafði liðið góð tök á leiknum og leiddu lengst af með ríflega þrjátíu stiga mun og breytti það litlu þótt gestunum tækist í tví- eða þrígang að koma muninum rétt niður fyrir þrjátíu stigin, þá gáfu Þórsarar aftur í.

 

Fór svo að Þór hafði 35 stiga sigur 101-66 og hefði sigurinn hæglega geta verið stærri ef Drew, Danni og Þröstur hefðu fengið meiri spilatíma.

 

Allir leikmenn Þórs fengu að spila og allir skoruðu og fengu sína dýrmætu reynslu úr þessum leik sem þeir taka með og leggja í reynslu bankann.

 

Stig Þórs gerðu, Andrew Lehman 16 stig, Tryggvi Snær 13 og 12 fráköst, Þröstur Leó og Sindri Davíð 11 stig hvor, Arnór Jónsson 9 stig öll úr þriggja stiga skotum, Einar Ómar 8, Sturla Elvars 7, Svavar Sigurður, Jón Ágúst og Ragnar Helgi 6 stig hver og Ragnar var ennfremur með 8 stoðsendingar, Danero Thomas 5 og Elías Kristjánsson 3.

 

Hjá Ármanni var Guðni Sumarliðason lang atkvæðamestur með 23 stig og 10 fráköst, Elvar Steinn Traustason 12 stig og þeir Sigurbjörn Jónsson og Þorsteinn Hjörleifsson 11 stig hvor, Andrés Kristjánsson 6 stig, Magnús Ingi Hjálmarsson 2 og Sindri Snær Rúnarsson 1.

 

Eftir sigurinn í kvöld er Þór sem fyrr á toppi deildarinnar nú með 26 stig og aðeins tveir leikir eru eftir.

 

Næsti leikur Þórs er útileikur gegn Hamri föstudaginn 4. mars og fer leikur liðanna fram í Hveragerði.

 

Myndir úr leiknum Palli Jóh

Heyrum hvað Arnór Jónsson hafði að segja í leikslok