Bestur allra tíma?

Stefnir í goðsagnakennda leiktíð hjá Stephen Curry

26.feb.2016  14:19 hordur@karfan.is

Nýting hans í langskotum er út úr kortinu.

Stephen Curry lauk leik gegn Orlando Magic í gærkvöldi með 51 stig með 10 af 15 nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. 51 stig og aðeins 27 skot utan af velli. Aðeins 1 vítaskot hjá honum í öllum leiknum. Curry bætti svo við 7 fráköstum og 8 stoðsendingum til að skreyta aðeins.

 

Þetta er í þriðja skiptið sem Curry fer yfir 50 stig á leiktíðinni og í tíunda skiptið sem hann fer yfir 40 stig. Skal engan undra að hann leiðir NBA deildina í stigaskori með 30,4 stig að meðaltali í leik. Hann er nú þegar búinn að slá met Kyle Korver yfir samfellda flesta leiki með einn eða fleiri þrista. Hann er kominn langt með að slá eigið met yfir flestar þriggja stiga körfur á einni leiktíð - og það er 23 leikir eftir af leiktíðinni.

 

ESPN tók nýlega saman nýtingu Curry vel fyrir utan þriggja stiga línunnar og kom þar í ljós að á svæðinu átta til fimmtán metrum frá körfunni er hann að hitta 35/52 eða 67,3%. Þar af er hann að hitta 4/11 tólf metrum frá körfunni, eða 36,4%. Hafa skal í huga að þriggja stiga línan í NBA deildinni er í um 7 metrum.

 

Steve Kerr, þjálfari Warriors er því ekki fjarri sannleikanum þegar hann segir að þriggja stiga skot sé bara eins og sniðskot fyrir Curry og skot frá miðju sé bara eins og þriggja stiga skot. Hugsa að flestir sætti sig við 36,4% þriggja stiga nýtingu eins og Curry skartar rétt fyrir innan miðju vallarins.

 

Brandon Payne, styrktarþjálfari Curry sagði þetta enga slembilukku og segir hann mun sterkari en hann var þegar hann kom fyrst inn í deildina. "Þessi styrkur er að gera honum kleift að skjóta alltaf lengra og lengra frá þriggja stiga línunni, án þess að breyta skotinu á neinn hátt."

 

Goðsögnin Oscar Robertson, sem þekktur er fyrir að hafa haft þrennu að meðaltali á heilli leiktíð í NBA deildinni 1962, segir eintóma vitleysinga vera að þjálfa í NBA deildinni þessa dagana. Hann segist ekki skilja hvers vegna Curry fái alltaf að taka sín "fríu" skot langt fyrir utan þriggja stiga línuna. Það þurfi að pressa hann allan völlinn og gera honum erfitt fyrir. Teygja þurfi vörnina utar á völlinn.

 

Hægara sagt en gert, Big-O.

 

Orlando reyndu þetta t.d. í leiknum í gær þar sem Victor Oladipo gerði heiðarlega tilraun til að líma sig á Curry. Oladipo lenti hins vegar oftar en ekki í hörðum hindrunum eða hreinlega missti bara af honum. Curry er bæði orðinn svo fær í að hreyfa sig án boltans auk þess að vera afar öflugur með boltann einnig.

 

"Ef þú pressar hann stíft opnast enn fleiri möguleikar fyrir hann og alla aðra með honum á vellinum," bætti Payne við. Curry er einfaldlega allt of úrræðagóður undir pressu. Þar að auki getur hann einfaldlega bakkað frá pressunni og tekið skotið af dýpra færi.

 

Að "teygja vörnina utan á völlinn" er nákvæmlega það sem Golden State Warriors vilja að þú gerir svo þeir geti niðurlægt þig enn meira. Varnartaktíkin ætti að einblína enn meira á að hindra það að hinir leikmennirnir á vellinum komist í gang.

 

 

Myndband af öllum 35 þristum Curry frá átta til fimmtán metrum.