Mitchell ekki með gegn Hetti

23.feb.2016  11:37 nonni@karfan.is

Mögulegt að hann klári ekki tímabilið

„Hann á að taka sér um sex vikna hlé en við vonum að það verði ekki svo langt,“ sagði Borche Ilievski Sansa þjálfari ÍR í Domin´s-deild karla þegar Karfan.is spurðist fyrir um stöðuna á Jonathan Mitchell. Kappinn lék ekki með ÍR í síðasta leik vegna lungnabólgu en Mitchell hefur fengið sinn skerf af veseni á tímabilinu þar sem hann fékk blóðtappa í annan fótinn í upphafi leiktíðar.


Borche staðfesti við Karfan.is að Mitchell yrði ekki með í næsta leik þegar ÍR og Höttur mætast á Egllsstöðum næsta fimmtudag. „Við vitum ekki hve langan tíma þetta mun taka en Mitchell mun reyna að æfa eitthvað í vikunni en hann leikur ekki með gegn Hetti, svo mikið er víst.“

 

Aðspurður um hvort veikindi væru þess eðlis að Mitchell myndi yfirgefa klúbbinn áður en leiktíðinni lyki sagði Borche að stjórn KKD ÍR ætti eftir að fara betur yfir þau mál. 

Átta stig eru enn í pottinum fyrir liðin í Domino´s-deild karla. ÍR hefur 10 stig í 10. sæti en Höttur með 4 stig í 12. sæti deildarinnar. Það verða því dýrmæt stig í boði á Egilsstöðum næsta fimmtudag.